Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ekki hugmynd

Nóbelsverðlaunahafinn og friðarsinninn Linus Pauling sagði eitt sinn að besta leiðin til að fá góða hugmynd væri að fá margar hugmyndir.

Hingað til hafa margar hugmyndir um hvernig eigi að bregðast við aðsteðjandi efnahagsvanda verið viðraðar. Ennþá bíðum við eftir góðri hugmynd, en af mörgum slæmum er að taka. Þó hagur heimilanna sé borinn fyrir brjósti í orði er stundum erfitt að sjá það í sumum þeirra hugmynda sem bornar eru á borð.

Sýnu verst hugmyndanna sem viðraðar hafa verið er að nota séreignarsparnað fólks til að greiða úr flækjum dagsins í dag. Séreignarsparnaður er hugsaður til að bæta fólki upp tekjutap við töku lífeyris. Almennt tryggir lögbundinn lífeyrissparnaður einungis um 90% af meðallaunum yfir starfsævina. Við bætist að lokalaun eru yfirleitt mun hærri en meðallaun starfsævi. Við töku lífeyris er ekki óvarlegt að ætla að ráðstöfunartekjur skerðist um 40%. Því er nauðsynlegt að eiga í aðra sjóði að venda, eigi fólk ekki að hrapa í tekjum. 

Að nota séreignarsparnaðinn nú er einungis að pissa í skóinn sinn. Og eins og fróðir menn vita er það einungis skammgóður vermir. Hugmyndin er afsprengi gamals þankagangs, þess hins sama sem kom okkur í þann vanda sem við erum í í dag: Lifum og eyðum eins og enginn sé morgundagurinn.

Verða vandamálin leyst með sama hugsanagangi og skapaði þau?

Ég hef ekki hugmynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband